Fréttapunktar af vettvangi Ásahrepps, 15. mars 2023

Miðvikudagur, 15. March 2023

Sótt um styrk frá reiðveganefnd Geysis

Á 10. fundi hreppsnefndar Ásahrepps var ákveðið að Ásahreppur myndi sækja um styrk úr reiðvegasjóði Geysis vegna fyrirhugaðra framkvæmda við reiðvegi innan marka sveitarfélagsins.

Ákveðið var að sækja um styrk vegna tveggja verkefna fyrir árið 2023, en gert er ráð fyrir fjárveitingu úr sveitarsjóði að upphæð 15 mkr. í ár.  Þessi verkefni eru:

  1. Reiðvegur milli Ásmundarstaða og Ásvegar.

Í fyrsta lagi er um að ræða ofaníburð á gömlu reiðleiðinni frá Ásmundarstöðum, lang leiðina að mörkum Ásmundarstaða og Áss (um 500 m)
Í öðru lagi lagning nýs reiðvegar frá og með vegi sem liggur að Skógarási og Hestási að landarmörkum Ásborgar (um 1,25 km).
Í þriðja lagi lagning nýs reiðvegar um Faxatröð sem liggur frá veginum að Ásborg og að landamerkjum Áss og Ásmundarstaða (1,15 km).

  1. Lagning nýs reiðvegar með Bugavegi, frá mörkum Ásahrepps og Rangárþings ytra, neðan Lyngáss, og að Kastalabrekku (1,25 km).

Kostnaðaráætlun fyrir þessi tvö verkefni eru rúmlega 35 milljónir króna.  Sótt var um styrk að upphæð rúmlega 20 mkr. en framlag Ásahrepps yrði 15 mkr.

 

Ráðning skrifstofustjóra Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, UTU

Stjórn Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. (UTU) auglýsti á dögunum eftir skrifstofustjóra hjá embættinu.  Nú hefur verið tekin ákvörðun um ráðningu í stöðuna og hefur Nanna Jónsdóttir verið ráðin þar til starfa sem skrifstofustjóri.

Það er mikið ánægjuefni að Nanna hafi verið ráðin í þetta mikilvæga starf enda hefur hún góða menntun og reynslu til að taka við þessu krefjandi starfi.  Er Nönnu óskað til hamingju með ráðninguna og velfarnaðar í starfi.

Nanna hefur verið fulltrúi Ásahrepps í skipulagsnefnd og stjórn UTU, en þar sem hún hefur verið ráðinn sem starfsmaður hjá embættinu þá hefur hreppsnefnd Ásahrepps kosið Ísleif Jónasson sem sinn aðalmann í skipulagsnefnd og stjórn UTU.  Varamaður hans var kosinn n.n.

 

Úthlutun úr Landbótasjóði vegna verkefna á Holtamannaafrétti

Til úthlutunar úr landbótasjóð fyrir árið 2023 voru 100 milljónir króna, sama upphæð og síðasta ár.  Sótt var um styrk vegna uppgræðsluverkefna á Holtamannaafrétti líkt og undanfarin ár.  Sótt var um styrk fyrir áburðardreifingu á 144 ha svæði.  Þetta verkefni hefur verið unnið samhliða verkefni um mótvægisaðgerðir sem gerður var samningur um við Landsvirkjun vegna Sporðöldulóns.

Alls bárust 89 umsóknir til sjóðsins og var Ásahreppi úthlutað kr. 3.454.000, en þeirri fjárhæð verður varið til áburðardreifingar á uppgræðslusvæðum landbótaverkefnisins á Holtamanna-afrétti.

 

Slökkvistjóri Brunavarna Rangárvallasýslu bs. ráðinn í 100% starf.

Sú breyting varð á starfi slökkvistjóra Brunavarna Rangárvallasýslu bs. að eftir síðustu áramót var starfshlutfalli hans breytt úr 30% í 100%.  Er þessi breyting á starfshlutfalli slökkvistjóra í samræmi við brunavarnaráætlun sem samþykkt var fyrir byggðasamlagið á síðasta ári.  Með þessari breytingu er ætlunin að byggja upp starfið og starfsemi brunavarna með markvissum hætti og metnaði.  Lögð verður áhersla á menntun og þjálfun starfsmanna, sinna eldvarnareftirliti og styrkja starfsstöðvar brunavarna í sýslunni.

 

Starfsnefnd um breytingar á tekjum og lagaumhverfi vegna orkuvinnslu

Samtök orkusveitarfélaga hafa verið undanfarið að vinna að stefnumótun er lýtur að breytingum á tekjum og lagaumhverfi vegna orkuvinnslu.  Í framhaldi af þeirri vinnu stjórnar ákvað hún að skipa starfsnefnd, sem er ætlað það hlutverk að vinna tillögur að breytingum hvað varðar tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu.  Nefndinni er ætlað að leggja fram drög að nýju lagaumhverfi um orkuvinnslu á Íslandi og koma á virku samtali allra hagaðila í samráði við stjórn Samtaka orkusveitarfélaga.

Í starfsnefndina voru skipuð eftirtaldir aðilar:

  • Jónína Brynjólfsdóttir, Múlaþingi, fyrir hönd stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga
  • Haraldur Þór Jónsson, fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps
  • Ísleifur Jónasson, fyrir hönd Ásahrepps
  • Helgi Gíslason, fyrir hönd Fljótsdalshrepps
  • Jón G. Valgeirsson, fyrir hönd Rangárþings ytra

Stjórnin samþykkti að Haraldur Þór Jónsson verði formaður nefndarinnar.