Hugmyndir um viðhald og nýtingu húsnæðis að Laugalandi
Sveitarstjórnir Ásahrepps og Rangárþings ytra hafa ákveðið hefja vinnu við skilgreiningu og þarfagreiningu fyrir nýtingu húsnæðis að Laugalandi fyrir stofnanirnar Laugalandsskóla og Leikskólans að Laugalandi með það að markmiði að nýting aðstöðu verði sem best. Arkís arkitektar hafa verið fengnir til verksins og er verið að vinna hugmyndir sem ætlað er að bæti nýtingu og þá aðstöðu fyrir skólastofnanirnar svo og mæti þörfum samfélagsins sem best. Fyrstu hugmyndir um innra skipulag hafa komið fram og eru nú í skoðun hjá stjórnendum stofnananna og forsvarsmanna sveitarfélaganna. Ljóst er að þó húsrými að Laugalandi sé töluvert, þá eru ýmsir möguleikar til að bæta nýtingu húsrýmis til muna. Fyrir liggur að þörf er á auknu rými, miðað við núverandi stöðu stofnanna m.t.t. fjölda nemenda og aðstöðugæða. Einnig er ljóst að viðhaldsaðgerða er þörf og þarf að líta til allra átta við að viðhalda og breyta húsnæðinu þannig að það nýtist sem best og ástand þess verði til fyrirmyndar.
Skýrsla um mat á starfi Grunnskólans Hellu og Laugalandsskóla
Stjórn Odda bs. réði Skólasstofuna, þau Ingvar Sigurgeirsson og Lilju M Jónsdóttur, að meta starf Grunnskólans Hellu og Laugalandsskóla þar sem lagt verði mat á stöðu skólanna og sóknarfæri. Skólastofan skilaði skýrslu sem lögð var fram á fundi stjórnar Odda bs þann 3. apríl s.l. Skólastjórnendur ásamt framkvæmdastjóra Odda var falið að vinna tímasetta aðgerðaráætlun umbóta, sem tekur mið af ábendingum skýrslunnar.
Hvatastyrkur til eldri borgara í Ásaheppi
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur samþykkt að veita eldri borgurum í Ásahreppi kost á hvatastyrk til heilsueflingar og félagslegrar virkni. Hægt er að skoða reglur um þennan hvatastyrk á heimasíðu Ásahrepps. (slóð: Hvatastyrkur eldriborgara.docx (asahreppur.is))
Markmið ákvörðunar hreppsnefndar Ásahrepps um greiðslu hvatastyrkja til eldri borgara Ásahrepps, sem eru 60 ára eða eldri, er að gefa öllum jöfn tækifæri á styrkjum til heilsueflingar, tómstunda og félagslegrar virkni. Þeir hafi val um það í hvað umræddur styrkur fer. Eldri borgarar geta því notað hvatagreiðslur í að kaupa sundkort, kaupa kort í ræktina, fara í golf, velja sér tómstundir við hæfi o.s.frv. eftir óskum einstaklinganna sjálfra.
Styrkurinn nemur allt að 75.000 kr. á árinu 2024 á hvern iðkanda. Hægt er að sækja um styrkinn beint á heimasíðu Ásahrepps eða að prenta út umsóknareyðublað þar, fylla út, og senda til skrifstofu sveitarfélagsins ásamt fylgiskjölum um útlagðan kostnað.
Hreppsnefnd Ásahrepps hvetur alla eldriborgara að kynna sér málið á heimasíðu Ásahrepps eða að hringja á skrifstofu sveitarfélagsins og afla sér upplýsinga þar.
Fyrirhugaðar breytingar við innheimtu vatnsgjalds
Stjórn Vatnsveitu Ásarhepps og Rangárþings ytra hefur ákveðið að fara að vinna að breytingum í álagningu vatnsgjalds í sveitarfélögunum. Lagt er upp með að stuðla að jafnræði í innheimtu vatnsgjalds. Það verður gert með mælavæðingu á inntökum stærri notenda, þ.e. rekstraraðilum gisti- og veitingastaða , vatnskrefjandi búrekstrar ásamt öðrum vatnskrefjandi rekstri. Samhliða mælauppsetningu verður gerð greining á því, með hvaða hætti er möguleiki á að ná sem mestu jafnræði í innheimtu aukavatnsgjalds. Markmiðið er að stefna að því að innheimta vatnsgjalds endurspegli sem best notkun og nýtingu vatns úr veitukerfinu þannig að álagning vatnsgjalds verði hvað réttlátust.
Sameiningarmál
Umræða hefur verið í gangi meðal sveitarstjórna í Rangárvallasýslu um möguleika og sóknarfæri í sameiningu sveitarfélaga innan sýslunnar. Frumkvæði þessarar umræðu kom frá hreppsnefnd Ásahrepps í ljósi breyttrar lagaumgjarðar um íbúafjölda sveitarfélaga. Ný lög hafa þrýst á minni sveitarfélög um sameiningu. Við síðustu kosningar til sveitarstjórna var viðmiðunartala íbúafjölda 250, þannig að Ásahreppur var stærri en lágmarksíbúafjöldi var tilgreindur í lögunum árið 2022. Lögin kveða síðan á um að lágmarksíbúafjölda sveitarfélags skuli miða við 1.000 íbúa um næstu kosningar 2026. Hreppsnefnd Ásahepps taldi því rétt að opna á viðtal við sveitarstjórnir Rangárþings ytra og eystra um afstöðu þeirra til sameiningar. Ljóst er í huga hreppsnefndar Ásahrepps að forsenda þess að hefja sameiningarviðræður er að íbúafundur verði haldinn í Ásahreppi þar sem íbúar komi til samráðs um forsendur og framhalds slíkra viðræðna. Afstaða íbúa Ásahrepps mun því ráða för um framhald málsins.
Íbúafundur vegna hugmynda um sameiningu sveitarfélaga
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur ákveðið að boða til íbúafundar í Ásahreppi til að ræða sameiningarmál og kalla fram afstöðu íbúa sveitarfélagsins til sameiningarmála. Gerð var skoðanakönnun í janúar 2022 þar sem fram kom að meiri hluti þeirra sem svöruðu könnuninni var ekki hlynntur sameiningu við önnur sveitarfélög, eða 56%. 44% þeirra sem svöruðu voru fylgjandi sameiningu Ásahrepps við annað eða önnur sveitarfélög. Mest fylgi var með sameiningu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu, sem réði þeirri ákvörðun að kanna fyrst afstöðu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu um sameiningu sveitarfélaga.
Hreppsnefnd Ásahrepps boðar því til íbúafundar um mögulegar viðræður um sameiningu við nágrannasveitarfélag eða -sveitarfélög. Tilgangur fundarins er að gefa íbúum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri upplýsa þá um ferli sameiningarviðræðna ef til þeirra kemur.
Fundurinn verður haldinn í matsal Laugalandsskóla þann 22. apríl nk. kl. 17:00.
Dagskrá:
- Kynning á ferli sameiningarviðræðna
- Umræður í hópum
Hægt verður að sitja fundinn í fjarfundi á Teams og taka þátt í umræðum með því að senda ábendingar og fyrirspurnir í gegn um Slido. Tengill á fundinn verður birtur á vefsvæði Ásahrepps (https://asahreppur.is) að morgni fundardags.
Íbúar eru hvattir til að láta sig málið verða og mæta til fundar, vort sem er að Laugalandi eða á fjarfundi. Í lok fundar verður verður í boði súpa og kaffi.
Úthlutun úr Landbótasjóði
Ásahreppi var úthlutað styrk úr Landbótasjóði upphæð kr. 3.010.000 vegna kaupa og dreifingar tilbúins áburðar vegna uppgræðsluverkefna á Holtamannaafrétti. Um er að ræða dreifingu tilbúins áburðar á 163 ha lands.
Þegar hefur verið óskað eftir tilboðum frá áburðarsölum varðandi kaup á áburði vegna dreifingar 2024. Skeljungur bauð besta verðið í ár og verða keypt 29,4 tonn af tvígildum áburði til dreifingar. Söluaðili sér um að flytja áburðinn á dreifingarstað Ásahreppi að kostnaðarlausu.
Svæðisskipulag Suðurhálendis
Nú er lokið vinnu við gerð Svæðisskipulag Suðurhálendis 2022-2042, þar sem mótuð er framtíðarsýn fyrir Suðurhálendið um sterka innviði, umhyggju fyrir auðlindum, ábyrga ýtingu auðlinda, aðgerðir fyrir loftslagið og góða samvinnu. Tillagan nær yfir hálendishluta sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps. Auk þess hafa sveitarfélögin Flóahreppur og Árborg tekið þátt í verkefninu.
Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti tillöguna fyrir sitt leyti ásamt greinargerððum að svæðisskipulagi Suðurhálendis á fundi sínum 20. mars s.l.
Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands
Á 24. fundi hreppsnefndar Ásahrepps var samþykkt að Ásahreppur gerðist styrktaraðili sjóðsins og skuldbatt sig að greiða kr. 50.000 næstu þrjú árin. Verkefni sjóðsins er að veita árlega styrk úr sjóðnum til námsmanna í masters- og doktorsnámi.
Framkvæmdir vegna lagningu göngu-, hjólreiða- og reiðvegar um Faxatröð
Hreppsnefnd Ásahrepps hafði ákveðið að leita tilboða hjá jarðverksverktökum í Ásahreppi vegna flutnings og útjöfnunar á efni í reið- og útivistarstígs um Faxatröð, sem liggur á milli Ásmundarstaða og Skógarásvegar. Niðurstaða verðkönnunar var að samið var við Heflun ehf um framkvæmd verksins og áætluð verklok eru fyrir 1. júní n.k. Undirritaður hefur verið verksamningur um verkið.
Jafnframt var nefndinni um göngu-, reiðhjóla- og reiðleiðir í Ásahreppi falið af hreppsnefnd Ásahrepps, að vinna hugmyndir um legu reiðvega í framhaldi af framkvæmdum við Faxatröð.