Ársreikningur Ásaljóss
Á síðasta fundi hreppsnefndar Ásahrepps var ársreikningur Ásaljóss fyrir rekstrarárið 2024 lagður fram og staðfestur. Helstu lykiltölur ársreikningsins eru í þúsundum króna:
Rekstrartekjur: 8.270
Rekstrargjöld: 3.073
Afskriftir: -3.811
Fjármagnstekjur: 8
Rekstrarniðurstaða jákvæð: 1.394
Eignir samtals: 74.683
Eigið fé: 73.549
Skammtímaskuldir: 1.134
Skuldir og eigið fé: 74.683
Handbært fé í árslok: 7.846
Efnistaka á Holtamannaafrétti.
Sú breyting varð á lögum um þjóðlendur í byrjun árs 2021, að tekjur vegna efnistöku á Holtamannaafrétti flytjist frá ríki til Ásahrepps. Unnið hefur verið að samningum við Landsvirkjun vegna efnistöku og hefur samningur verið undirritaður vegna efnistöku frá byrjun árs 2021. Samningur þessi gildir til 10 ára.
Samstarfsverkefni Ásahrepps og Vegagerðarinnar.
Á 36. fundi hreppsnefndar Ásahrepps var lagt fram minnisblað frá fundi fulltrúa Vegagerðarinnar með oddvita og sveitarstjóra Ásahepps. Á þessum fundi var farið yfir ástand vega innan Ásahrepps, nýjar heimreiðar og hraðatakmarkanir við Ás og Dvergabakka.
Vegagerðin samþykkti að setja hraðatakmarkandi skilti við Dvergabakka til að reyna að draga úr umferðarhraða fram hjá bænum. Vegna aðstæðna við Ás var það niðurstaðan að uppsetning hraðahindrana væri nauðsynleg og lækkun hámarkshraða við heimreiðar að Ási 1, Ási 2 og Áskots. Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti að fara í samstarf við Vegagerðina við þá framkvæmd.
Ljóst er að fjárveitingar til Vegagerðarinnar í viðhaldsverkefni er af mjög skornum skammti og ekki verður um stærri viðhaldsverkefni að ræða í Ásahreppi næsta sumar. Þó verður reynt að sinna bráðaverkefnum s.s. að laga og loka holum sem myndast hafa á vegum og byggja upp vegkanta sem eru farnir að brotna.
Tveir hlutu styrk úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands
Árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands var haldinn miðvikudaginn 12. febrúar á sal Fjölbrautarskóla Suðurlands. Tónlistarskóli Árnesinga hóf athöfnina með flutningi verksins O Salutaris eftir F. Schubert en þær Karolina Koniczna, Auður Garðarsdóttir og Jónína Eirný Sigurðardóttir sungu við píanóundirleik Esterar Ólafsdóttur tónlistarkennara.
Tveir nemendur hlutu styrk Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands að þessu sinni. Anna Guðrún Þórðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands hlaut styrk fyrir verkefnið „Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum “. Meginmarkmið verkefnisins er að stuðla að þróun byggyrkja sem eru aðlöguð kaldtempruðum umhverfisskilyðrum líkt og á Íslandi. Verkefnið er því mikilvægur hlekkur í eflingu kornræktar og í því að skapa fæðuöryggi hér á Íslandi. Þá fékk Clémence Daigre, doktorsemi við Háskóla Íslands styrk fyrir verkefni sitt sem fjallar um vatnskerfi jökla og spár um það hvernig viðbrögð vatnakerfa skriðjökla eru við hlýnandi loftslag. Rannsóknarsvæðið nær yfir fjóra skriðjökla Vatnajökuls og verður þróað reiknilíkan sem tengir saman vatnsrennsli undir jökli og grunnvatnslíkan sem verður byggt á jarðfræðilegum forsendum. Þar sem Clémence var fjarverandi tók leiðbeinandi hennar, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir við styrknum fyrir hennar hönd.