Samningur við Syndis um öryggisvöktun upplýsingakerfa.
Ásahreppur hefur gert samning við Syndis um öryggis- og tölvuvöktun á upplýsingakerfum sveitarfélagsins. Samningurinn byggir á rammasamningi sem Syndis og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gert, sem tryggja á betur alla öryggisvöktun tölvukerfa sveitarfélaga.
Vinna er þegar hafin með að setja upp vöktun fyrir upplýsingakerfum Ásahrepps. Þetta er mikið öryggismál þar sem sífelldur vöxtur hefur verið af tölvu- og netárásum af óprúttnum aðilum á íslensk fyrirtæki og stofnanir. Þetta er mikilvægt skref til að verjast sem best fyrir þeirri ógn sem af þessari ólöglegu starfsemi leiðir.
Áform um lagabreytigar á sviði sveitarstjórnarmála.
Innviðaráðuneytið tilkynnti þann 14. maí s.l. að innviðaráðherra hyggst leggja fram frumvörp í hausts, þá annars vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga (skattlagning orkumannirkja) og hins vegar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Áform þessi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur verið að vinna að umsögn um þau áform sem birt hafa verið. Það er ánægjulegt að stigið hafi verið þetta skref, enda er hér um að ræða áralangt baráttumál sveitarfélaga. Nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir en mun málið skýrast með framlagningu þessara frumvarpa á næsta haustþingi.
Slóðin á samráðsgátt stjórnvalda er: Samráðsgátt | Mál: S-89/2025
Sumarlokun skrifstofu Ásahrepps.
Skrifstofa Ásahrepps verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með 7. júlí n.k. til og með 8. ágúst n.k. Þrátt fyrir að skrifstofa sé lokuð er hægt að hafa samband við sveitarstjóra með því að senda tölvupóst á valtyr@asahreppur.is en einnig er farsímanúmer hans 897-0890.
Hreppsnefnd Ásahrepps er í sumarfríi í júlímánuði.
Nýjar verklagsreglur um styrki til viðhalds eða lagningar nýrra útivistarstíga í Ásahreppi.
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur samþykkt nýjar verklagsreglur um styrki til viðhalds eða langningar nýrra útivistarstíga í Ásahreppi.
Hægt er að sækja um styrki á sérstöku umsóknareyðublaði sem má nálgast á heimasíðu Ásahrepps. Slóðin á umsóknareyðublaðið er:
Hinar nýju verklagsreglur eru eftirfarandi:
Verklagsreglur við úthlutun styrkja til viðhalds eða lagningu nýrra útivistarstíga í Ásahreppi
Reglur varðandi styrki til gerðar útivistarstíga:
Framlög til nýlagningar og viðhalds útivistarstíga eru ávallt háð þeim fjárveitingum sem til staðar er í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á hverju ári. Fjárhæð styrkja miðast við lögheimili umsækjenda og verða þeir að hafa lögheimili í sveitarfélaginu. Fleiri en eitt lögheimili geta sameinast um eina umsókn um ákveðinn kafla stígs.
Ekki er hægt að sækja um styrk nema einu sinni á ári. Umsóknir þurfa að berast fyrir 10. apríl ár hvert, en fyrir árið 2025 þurfa umsóknir að berast fyrir 15. ágúst. Hægt er að nálgast þessar reglur og umsóknareyðublað á heimasíðu Ásahrepps.
Þeir aðilar sem sækja um í fyrsta sinn hafa forgang að úthlutun. Ræður fjölda veittra styrkja röðun um úthlutun á hverjum tíma.
Flokkur 1:
Nýr útivistarstígur eða það gamall og uppgróinn að ekki er um viðhald að ræða.
Hámarks styrkupphæð er 1.500.000 kr miðað við 3 m breiðan útivistarstíg þar sem enginn stígur er eða það gamall að ekki sé hægt að flokka verkið sem viðhaldsverkefni. Krafa er gerð um að viðkomandi stígur sé opinn almenningi.
Umsóknum verður forgangsraðað eftir því sem þær berast. Reiknað er með því að umsækjendur hafi samráð við verkefnastjóra um útvegun og keyrslu á efni á staðinn en muni dreifa efninu sjálfir, t.d. með sturtuvagni í stæði stígs. Útivistarstígur liggi með tengi- eða héraðsvegi. Þeir aðilar sem hugsa sér framkvæmdir á útivistarstígum sæki um skriflega til hreppsnefndar sem afgreiðir umsóknirnar formlega á næsta reglubundna fundi.
Flokkur 2:
Viðhald núverandi útivistarstíga.
Til viðhalds á núverandi útivistarstígum sem opnir eru almenningi er ákveðið að veita styrk að hámarki 750.000 kr miðað við 3 m breiðan stíg.
Umsóknum verður forgangsraðað eftir því sem þær berast. Reiknað er með því að umsækjendur hafi samráð við verkefnastjóra um útvegun og keyrslu á efni á staðinn en muni dreifa efninu sjálfur, t.d. með sturtuvagni í stæði stígs. Útivistarstígur liggi með tengi- eða héraðsvegi. Þeir aðilar sem hugsa sér framkvæmdir á útivistarstígum sæki um skriflega til hreppsnefndar sem afgreiðir umsóknirnar formlega á næsta reglubundna fundi.
Flokkur 3:
Lagning útivistarstíga til tenginga við stofnstíga sem sveitarfélagið hyggst leggja um sveitarfélagið.
Ákveðið að veita styrk að hámarki 1.500.000 kr miðað við 3 m breiðan útivistarstíg þar sem verið er að leggja stíg sem tengir viðkomandi jörð við stofnstíga sveitarfélagsins. Krafa er gerð um að viðkomandi stígur sé opinn almenningi.
Umsóknum verður forgangsraðað eftir því sem þær berast. Reiknað er með því að umsækjendur hafi samráð við verkefnastjóra um útvegun og keyrslu á efni á staðinn en muni dreifa efninu sjálfur, t.d. með sturtuvagni í stæði stígs. Þeir aðilar sem hugsa sér framkvæmdir á útivistarstígum sæki um skriflega til hreppsnefndar sem afgreiðir umsóknirnar formlega á næsta reglubundna fundi.
Umsóknir um lagningu þessara stíga mun njóta forgangs til jafns við þá sem sækja um styrk í fyrsta sinn. Þessi forgangur helst þar til að tenging hefur orðið við stofnstíga sveitarfélagsins.
Fylla þar út umsóknareyðublað þar sem fram kemur áætlaður verktími, lýsing á staðsetningu stígsins og efni sem nota á til verksins. Aðili á vegum sveitarfélagsins hefur umsjón með myndatöku af verksvæði fyrir og eftir lagningu stígsins. Styrkur er greiddur gegn framvísun reikninga og að lokinni úttekt af umsjónaraðila. Hægt er að sækja um frestun á verklokum ef málefnalegar ástæður liggja fyrir.
Styrkurinn nær yfir jarðefni, ræsi og aðkeyptan flutning á efni að verkstað. Styrkurinn nær ekki yfir vinnu við lagningu stígs, girðingarefni eða vinnu við girðingar. Ásahreppur útvegar hliðgrindur sem setja skal upp á landamörkum þegar um verkefni í flokki 3 er að ræða.