Fréttapunktar af vettvangi Ásahrepps, september 2024

Mánudagur, 23. september 2024

Heimasíða Ásahrepps
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur ákveðið að uppfæra heimasíðu sveitarfélagsins.  Gerður hefur verið samningur við Stefnu um gerð nýrrar heimasíðu.  Stefna hefur m.a. hannað heimasíðu Rangárþings ytra og Rangárþings eystra.

Upp kom sú staða að sýrikerfi núverandi heimasíðu var að úreldasts og viðhald og uppfærslu þess stýrikerfis lýkur um næstu áramót.  Það var því ekki um annað að ræða en að hanna heimasíðu í nýju umhverfi.  Með nýrri heimasíðu mun til að mynda aukast aðgengi að undirliggjandi gögnum hreppsnefndar og öll meðferð gagna og viðhald auðveldasts.  Gert er ráð fyrir að ný heimasíða verði komin í gagnið fyrir áramót.

Suðurlíf – heimasíða um frístundir
Sveitarfélögin í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu hafa ákveðið að sameinast um gerð síðu um frístundir, viðburði m.m. í sýslunum.  Þessi heimasíða hefur fengið nafnið Suðurlíf og mun tengjast heimasíðum sveitarfélaganna.  Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um viðburði, íþróttaiðkun, menningu m.m.  Upplýsingar til almennings mun stórlega aukast og hvað þessa þætti varðar og hægt verður að tengja nýja heimasíðu Ásahrepps við þessa síðu, en hönnuðir Suðurlífs er einnig Stefna.

Dagdvöl fyrri fók með heilabilun og tengda sjúkdóma
Sveitarfélögin Ásahreppur og Rangárþing ytra hefur skipað vinnuhóp sem ætlað er að vinna með stjórn Lundar sem skoða mun möguleika á dagdvalarúrræðum fyrir fólk með heilabilun og tengda sjúkdóma.  Fulltrúar frá félagsþjónustunni og heilsugæslunni eiga fulltrúa í þessum vinnuhópi.  Um afar mikilvægt mál er að ræða en nauðsynlegt  er að huga að þörfum þeirra einstaklinga sem um ræðir og finna úrræði sem getur skapað aðstæður sem mætir sem best þörfum þeirra og fjölskyldna.

Breytingar á húsnæði Laugalandsskóla
Unnið hefur verið að breytingu húsnæðis Laugalandsskóla í sumar.  Búið er að opna efri kennaraíbúðina inn í grunnskólann og langt komið með að lagfæra og gera þá íbúð klára fyrir nýtingu hjá grunnskóla, leikskóla og Tónlistarskóla Rangæinga.  Búið er að skipta upp og setja millivegg í bókasafninu.  Þannig hefur rými bókasafnsins minnkað um helming  en búið að standsetja kennslustofu fyrir grunnskólann í hinum hlutanum, sem nýtt verður sem tölvuver.

Ekki er byrjað enn á nýrri deild leikskólans í núverandi aðstöðu skrifstofu Ásahrepps, né að breyta neðri hæð skólastjórabústaðar fyrir skrifstofu Ásahrepps.  Áætlað er að vinna við þessa verkþætti hefjist nú í haust og byrjun vetrar, þannig að ný deild leikskólans verði klár fyrir næstu áramót.