Opnað hefur verið fyrir umsóknir í uppbyggingarsjóð Suðurlands haustið 2024

Mánudagur, 19. ágúst 2024

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í haustúthlutun Uppbyggingarsjóð Suðurlands 2024. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningar á Suðurlandi. Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar eru það atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileika atvinnulífs. Í flokki menningar er markmið að verkefni efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands byggir á Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024. Umsækjendum er því bent á að kynna sér vel úthlutunarreglur sjóðsins, áherslur, markmið og mat á umsóknum sem eru aðgengilegar hérSjóðurinn er samkeppnissjóður sem þýðir að vel mótuð verkefni, skýrar og góðar umsóknir, eru líklegri til að hljóta styrki. 

Umsóknir fyrir verkefni í sjóðinn geta uppfyllt eina eða fleiri áherslur sjóðsins en skilyrði er að öll verkefni uppfylli að lágmarki markmið sjóðsins í þeim flokki sem það tilheyrir, menningu eða atvinnu- og nýsköpun. Byggðaþróunarfulltrúar SASS eru staðsettir víða á Suðurlandi og aðstoða við mótun verkefna og veita ráðgjöf. Við hvetjum Sunnlendinga til að nýta sér þessa þjónustu. Hvort sem er nú í tengslum við Uppbyggingarsjóð eða á öðrum tíma ársins í tengslum við önnur verkefni er tengjast atvinnuþróun, nýsköpun eða menningu. Við bendum einnig á ráðgjafasíðu SASS, þar sem er að finna upplýsingar og leiðbeiningar um umsóknarskrif.

Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum umsóknarvef sjóðsins. Umsækjandi þarf að skrá sig inn á umsóknarformið með íslykli eða með rafrænum skilríkjum og þarf að hafa lögheimili á Suðurlandi. Ef sótt er um í nafni lögaðila s.s. fyrirtækis, stofnunnar eða félagasamtaka þarf viðkomandi lögaðili að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum þess lögaðila en ekki persónulegum aðgangi verkefnastjóra. Athugið að ekki er hægt að breyta kennitölu og nafni umsækjanda eftir að umsókn hefur verið stofnuð. 

Hægt er að kynna sér sjóðinn nánar á heimasíðunni www.sass.is/uppbyggingarsjodur

Umsóknir skulu berast fyrir kl. 16.00 þann 1október 2024.