Uppgræðsla á Holtamannaafrétti
Ásahreppur fékk úthlutað styrk vegna uppgræðslu á Holtamannaafrétti úr Landbótasjóði í ár. Styrkurinn nam kr. 3.454.000 og var nýttur til áburðarkaupa. Nytjaréttarhafar dreifðu síðan þeim áburði á valin svæði skv. áætlun sem unnin hefur verið í samvinnu við Landgræðsluna. Einnig var áburði dreift skv. samkomulagi við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir vegna Sporðöldulóns. Alls var dreift 47,4 tonnum af tilbúnum áburði á Holtamannaafrétti nú í sumar vegna þessara verkefna.
Einnig verður dreift 60 tonnum af kjötmjöli nú í haust, eftir að búið er að hreinsa afréttinn, skv. samningi við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir vegna Sporðöldulóns. 20 tonnum verður dreift innan uppgræðslusvæðis og 40 tonnum á athafnasvæði.
Reiðleið milli Ásmundarstaða og Ásvegar
Í undirbúningi hefur verið framkvæmd um að opna reiðleið á milli Ásmundarstaða og Ásvegar síðustu misseri. Nú er komið að þeim tímapunkti að hefja framkvæmdir við lagningu stígsins. Stefnt verður að því að undirbúa undirlag undir stíginn og girða hann af nú í haust, en stefnt að efnisflutningum og útjöfnun nú í vetur þegar jörð er orðin frosin.
Gerð verður verðkönnun meðal jarðvinnuverktaka í sveitarfélaginu um flutning á malarefni og útjöfnun.
Heilsueflandi haust í Rangárþingi
Hreppsnefnd Ásahrepps ákvað á 16. fundi sínum að ganga til samsstarfs við Rangárþing ytra og Rangárþing eystra um sameiginlegt verkefni sem snýst um heilsueflingu í Rangárþingi. Nanna Jónsdóttir, varaoddviti hreppsnefndar Ásahrepps, er fulltrúi sveitarfélagsins í starfshópnum sem stýrir verkefninu. Þegar hafa birst auglýsingar um viðburði verkefnisins í Búkollu.
Hreppsnefnd Ásahrepps vill hvetja íbúa Ásahrepps að hafa samband ef einhverjar óskir eru um áherslur eða tillögur um verkefni. Mikilvægt er að þetta verkefni takist vel og reynt verið að mæta hinum ýmsu þörfum íbúanna með tilliti til heilsueflingar.
Lagning slitlags á nýjar heimreiðar og viðhald héraðs- og tengivega í Ásahreppi
Þessa dagana er að hefjast framkvæmdir við lagningu slitlags á nokkrar nýjar heimreiðar í Ásahreppi. Einnig hefur Vegagerðin ákveðið að ráðast í viðhaldsverkefni á þremur stöðum, þ.e. Króksvegi, Áshólsvegi og Ásmundarstaðavegi. Því miður var skorið niður fjármagn Vegagerðarinnar til viðhalds vega á þessu ári um helming, þannig að ekki reyndist unnt að fara í eins mörg verkefni og til stóð. Lögð verður áhersla á að viðhaldsframkvæmdum verði framhaldið á næsta ári og vonandi verður auknu fjármagni varið til þessara viðhaldsverkefna í sveitarfélaginu, en þörfin er mjög mikil um viðhald og lagfæringar.
Jafnréttisáætlun Ásahrepps hefur verið endurskoðuð
Á 16. fundi hreppsnefndar Ásahrepps var endurskoðuð jafnréttisáætlun sveitarfélagsins samþykkt. Gildistími áætlunarinnar er 2023-2026. Hægt er að skoða áætlunina með því að smella á krækjuna: Jafnréttisáætlun 2023-2026.
Losun rotþróa í Ásahreppi
Í ár var losun rotþróa í Ásahreppi á dagskrá hins sameiginlega seyruverkefnis. Nú hefur þessu verki verið lokið að búið er að losa rotþrær í hreppnum.