Kristín Ósk ráðinn leikskólastjóri Leikskólans á Laugalandi

Mánudagur, 19. maí 2025

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Kristín Ósk Ómarsdóttir handsala ráðninguna.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og Kristín Ósk Ómarsdóttir handsala ráðninguna.

Kristín Ósk Ómarsdóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri Leikskólans á Laugalandi. Starfið var auglýst fyrr í vor í kjölfar þess að Sigrún Björk Benediktsdóttir sagði starfi sínu lausu eftir langan og farsælan feril, en hún lætur af störfum vegna aldurs.

Kristín þekkir vel til á leikskólanum en hún hefur starfað þar með hléum frá árinu 2017 og starfar þar í dag sem deildarstjóri, staðgengill leikskólastjóra og staðgengill umsjónarmanns sérkennslu. Hún mun taka við stöðu leikskólastjóra 5. ágúst næstkomandi.

Kristín hlaut B.A. gráðu í félagsráðgjöf árið 2005, M.A. gráðu í félagsráðgjöf árið 2016 og M.ed. gráðu í menntunarfræði leikskóla árið 2020. Auk þess hefur hún lokið bókhalds- og rekstrarnámi, lokið 30 ECTS í lýðheilsu- og kennslufræðum og viðbótardiplóma í farsæld barna.

Enn fremur hefur Kristín lokið fjölda námskeiða sem snúa að leikskólakennslu, þ. á m. námskeiði í jákvæðum aga, TRAS-málþroskaskráningu, atferlisíhlutun fyrir börn með þroskafrávik, HLJÓM-2 auk fjölda annarra.

Kristín Ósk býr á Sjónarhóli í Ásahreppi ásamt fjölskyldu sinni.

Við óskum Kristínu til hamingju með ráðninguna og óskum henni velfarnaðar í nýju starfi.