
Markaðsstofur landshlutanna hafa tekið höndum saman um samræmda framsetningu áfangastaðaáætlana. Norðurland opnaði sitt vefsvæði fyrr á árinu og nú er Áfangastaðaáætlun Suðurlands komin í loftið! Áður en langt um líður verður hægt að flakka á milli áfangastaðaáætlana allra landshlutanna, bera saman greiningar, kynna sér ýmis þróunarverkefni og sækja innblástur. Verkefnið er unnið með stuðningi Ferðamálastofu.
Allt frá fróðleik til framtíðarsýnar
Áfangastaðaáætlun Suðurlands er heildstæð áætlanagerð með ferðaþjónustuna sem útgangspunkt. Hún var fyrst gefin út árið 2018 og byggð á víðtæku samráði íbúa, sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra hagaðila á Suðurlandi. Síðasta heildaruppfærsla fór fram árið 2023 og byggir þessi vefur á henni. Efnisflokkar vefsins eru þrír:
- Áfangastaðurinn: Hér má finna almennar upplýsingar um áfangastaðinn Suðurland ásamt stöðugreiningum og talnaefni.
- Þróun: Hér er Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar og upplýsingar um þau verkefni sem unnið er að til að færa áfangastaðinn nær markmiðum sínum.
- Uppbygging: Hér má lesa um þá staði sem sveitarfélög, í samráði við landeigendur og aðra hagaðila, leggja áherslu á að efla sem áfangastaði ferðamanna.
Nýtist stjórnendum, stofnunum og sveitarfélögum
Áfangastaðaáætlun veitir sveitarfélögum stuðning við ákvarðanatöku og skipulag. Stofnanir geta einnig nýtt vefinn til að samræma stefnu og aðgerðir í tengslum við ferðamál. Um leið veitir hann ferðaþjónustuaðilum aukið rými til þátttöku, samráðs og aðgerða. Með þessari nýju framsetningu er Áfangastaðaáætlun Suðurlands nú gagnvirk og lifandi fyrir þann fjölbreytta hóp sem hana nýtir.
Hvert stefnir Suðurland
Vilt þú vita hvert Suðurland stefnir í ferðamálum? Ertu forvitin um uppbyggingu innviða við ferðamannastaði á Suðurlandi? Veistu hversu mörg starfa við ferðaþjónustu innan landshlutans? Smelltu hér eða sláðu inn vefslóðina south.is/afangastadaaaetlun og svalaðu forvitninni.
Frekari upplýsingar veitir Vala Hauksdóttir, verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar Suðurlands: vala(hjá)south.is
