AUGLÝSING
Sorpstöð Rangárvallasýslu bs., byggðasamlag sveitarfélaganna Rangárþings ytra og eystra og Ásahrepps óskar eftir tilboðum í þjónustusamning til brennslu á 2500 tonnum á ári af óendurnýtanlegum úrgangi frá heimilum, fyrirtækjum og iðnaði á starfssvæði Sorpstöðvar Rangárvallasýslu. Áhersla skal lögð á, að hægt verði að nýta varmaorkuna frá brennslunni.
Markmið þjónustusamningsins er að draga verulega úr flutningi og afsetningu úrgangs með því að brenna sorp og nýta orkuna sem fæst úr því fyrir nærliggjandi hitaveitukerfi.
Gert er ráð fyrir að þjónustuaðili komi upp lítilli brennslustöð að afli um það bil 1 MW á athafnasvæði byggðasamlagsins að Strönd í Rangárvallasýslu, þar sem þessi úrgangur verður brenndur. Brennslustöðin skal uppfylla allar viðeigandi kröfur Evrópusambandsins um sorpbrennslustöðvar og rekstur þeirra, þar með talið mengunarvarnir, orkuframleiðslu og sölu þeirrar varmaorku sem stöðin framleiðir. Einnig skal stöðin uppfylla allar kröfur sem gerðar eru hérlendis um rekstur og tæknilegan búnað slíkra stöðva.
Þjónustuaðili sér um að kaupa, fjármagna, flytja og setja stöðina upp á athafnasvæði Sorpstöðvarinnar að Strönd og gangsetja hana og afla tilskilinna leyfa.
Þjónustuaðili fær flokkaðan úrgang til brennslu í stöðinni. Gert er ráð fyrir, að stöðinni fylgi tætari, með skanna fyrir málma, sem komið verði fyrir í flokkunarhúsi sorpstöðvarinnar. Allt ferlið, frá tætara til og með losun á botnösku og flugösku, sem verður til við brennsluna, á að vera sjálfvirkt. Þjónustuaðili sér um að farga þeirri flugösku sem fellur til við brennsluna, en Sorpstöðin tekur á móti botnösku frá brunaristinni til förgunar. Gera skal ráð fyrir, að starfsmenn sorpstöðvarinnar að Strönd annist daglegan rekstur stöðvarinnar undir eftirliti þjónustuaðila.
Þjónustutilboðið skal fela í sér hliðgjald, krónur fyrir hvert kíló af sorpi sem brennt verður í stöðinni. Hliðgjaldið er eina greiðslan til þjónustuaðilans. Gert er ráð fyrir að Sorpstöðin geti afhent allt að 2200 tonn af brennanlegum úrgangi árlega. Reiknað er með að hliðgjaldið breytist mánaðarlega í samræmi við neysluverðsvísitölu út samningstímann. Samningurinn gildir í fimm ár frá undirritun hans en með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn ef báðir aðilar samþykkja það.
Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.