Eydís Indriðadóttir gefur Ásahreppi landspilduna Faxatröð

Mánudagur, 10. október 2022
Ísleifur Jónasson, oddviti, færir Eydísi blómvönd, sem þakklætisvott frá Ásahreppi.

Eydís Indriðadóttir hefur gefið Ásahreppi landspilduna, Faxatröð, sem liggur með landi hennar Ásborg og landspildna úr landi Áss 3.  Um Faxatröð verður lagður stígur sem nýta má sem reiðstíg en jafnframt sem vegtengingu fyrir eigendur landspildna úr Ási 3 sem liggja með Faxatröð.  Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á síðasta fundi sínum og setja á fót nefnd sem vinna skal að framtíðarsýn um legu og lagningu reiðhjóla-, göngu- og reiðstíga innan sveitarfélagsins.  Þessi gjöf Eydísar er mikilvægur þáttur í tengingu frá Ásmundarstöðum að Áshverfinu og er Eydísi þakkað af alhug fyrir þetta veglega framlag til enn frekari eflingar á reiðstígakerfi Ásahrepps.