Fréttapunktar af vettvangi Ásahrepps, 15. febrúar 2023

Föstudagur, 17. febrúar 2023

Aðalskipulag Ásahrepps

Endurskoðað Aðalskipulag Ásahrepps 2020-2032 hefur öðlast gildi og var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2022.  Hægt er að skoða skipulagið og fylgiskjöl þess á heimasíðu Ásahrepps.  Slóðin er:  https://asahreppur.is/sites/default/files/7463-004-ask-001-v01-greinargerð undirrituð.pdf

 

Fréttir frá Leikskólanum Lauglandi

Þorrablót 2023

Í Leikskólanum Laugalandi er eitt af markmiðum okkar að börnin kynnist umhverfi leikskólans vel og menningu samfélagsins sem við búum í.  Við ræðum um ólíka staði og upplifanir og reynum að víkka sjóndeildarhring barnanna.  Börnin læra þulur, íslenskar vísur og lesnar eru þjóðsögur.   Haldnar eru menningar- og þjóðlegar hátíðir og er ein þessara hátíða þorrablót sem við héldum á bóndadaginn.  Dagana fyrir blótið æfðu börnin atriði sem þau síðan sýndu og eftir sýninguna var dansað við harmonikku undirleik þeirra Grétars Geirssonar og Víkings Árnasonar.  Að lokum var síðan borðaður þorramatur.  Börnin voru yfirleitt mjög spennt að smakka kræsingarnar sem mikið var búið að ræða um dagana á undan en nokkrir gugnuðu þó þegar þau fundu lykt af hákarlinum.  Þorrablótið heppnaðist einstaklega vel og voru bæði börn og starfsmenn ánægðir með daginn.

 

Umdæmisráð barnaverndar í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu bs, myndi ganga til samstarfs við sveitarfélög á Reykjanesi, Árborg um rekstur umdæmisráðs barnaverndar fyrir þessi sveitarfélög.  Rekstur umdæmisráðs barnaverndar er tilkomið með nýjum lögum um velferð barna.  Jafnframt verður þjónusta vegna barnaverndarmála vistuð hjá Félags- og skólaþjónustunni.

Svæðisskipulag Suðurhálendis

Undanfarin ár hefur samstarfsnefnd á vegum SASS verið að vinna að tillögum að svæðisskipulagi Suðurhálendis.  Tillagan er í kynningu núna og opinn kynningarfundur var auglýstur á heimasíðu Ásahrepps og var haldinn á Hótel Selfossi þann 8. febrúar 2023.

Hægt er að kynna sér tillöguna á heimasíðu SASS, en slóðin á kynninguna er: Svæðisskipulag Suðurhálendisins | SASS .  Frestur til athugasemda er til 19. febrúar 2023.  Í kjölfar þess mun tillagan verða skoðuð með tilliti til innsendra athugasemda.  Að þeirri vinnu lokinni er komið að auglýsingu tillögunnar samkvæmt Skipulagslögum 123/2010.

Snjómokstur

Þjóðvegir

Vegagerðin sér um allan snjómokstur á þjóðveginum sem liggur um sveitarfélagið.  Til upplýsinga er hér gefið yfirlit yfir verklag sem viðhaft hefur verið nú í vetur og síðasta vetur.  Á næsta ári verður aftur farið í útboð á þessum verkþætti og mun verklag og fyrirkomulag verða sett í endurskoðun hjá sveitarfélögunum Ásahreppi og Rangárþingi ytra áður en næsta útboð verður framkvæmt.

Héraðs- og tengivegir

Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar (sjá www.vegagerdin.is) er heimilt að moka þessa vegi með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki þrisvar sinnum í viku, meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Miðað er við að búið sé að opna allar aðalleiðir virka daga kl. 7 að morgni þá daga sem mokað er. Kostnaður við snjómokstur þessara vega skiptist til helminga á Vegagerð og sveitarfélagið. Komi til að moka þurfi helmingamokstur oftar en þrisvar í viku verður að liggja fyrir samþykki Vegagerðarinnar á greiðslu helmings kostnaðar á móti Rangárþingi ytra eða Ásahreppi. Vegagerðin sér um þann mokstur að höfðu samráði við forstöðumann Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er einnig heimilt að moka sérstaklega vegna jarðarfara og greiðir Vegagerðin þann kostnað að fullu.

Heimreiðar í dreifbýli

Heimreiðar í dreifbýli eru mokaðar allt að þrisvar sinnum í viku þegar þörf er á og meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra metur þörf á mokstri. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili. Sveitarfélögin annast ekki mokstur heimreiða að sumarhúsum og sveitarfélagið greiðir ekki snjómokstur eða hálkuvarnir inni á sumarhúsasvæðum.

Þéttbýli

Götur í þéttbýli eru mokaðar, svo og bílastæði við stofnanir sveitarfélagsins. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli.

Önnur atriði

Aðilar sem taka upp fasta búsetu og skrá lögheimili á stöðum í dreifbýli sem ekki hefur verið mokað að geta haft samband við Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra varðandi mokstur. Hafa ber í huga að þessar reglur eru settar til viðmiðunar og ber að líta á þær sem slíkar. Getur tíðarfar og snjóþyngsli raskað áformum um mokstur. Hvorki Vegagerðin né Rangárþing ytra eða Ásahreppur bera ábyrgð á tjóni sem kann að verða, takist ekki að framfylgja viðmiðunarreglunum. Íbúar eru hvattir til að láta Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra vita í síma 487-5284 þegar ófært er.

Allar nánari upplýsingar um snjómokstur í Rangárþingi ytra og Ásahrepps utan þjóðvega eru veittar hjá þjónustumiðstöð Rangárþings ytra á netfanginu ry@ry.is  eða í s: 487-5284.

Upplýsingar um færð á vegum eru aðgengilegar á https://www.vegagerdin.is.

Viðhald vega í Ásahreppi

Sveitarstjóri átti fund með fulltrúum Vegagerðarinnar þann 3. nóvember 2022 þar sem fjallað var um ástand vega innan marka Ásahrepps.  Oddviti og sveitarstjóri höfðu áður farið um allflesta vegi í Ásahreppi til að meta ástand þeirra.  Í kjölfar þeirrar yfirreiðar ritaði sveitarstjóri minnisblað sem lagt var fram á þessum fundi með Vegagerðinni.  Kom fram hjá fulltrúum VG að þeim sé skylt að forgangsraða vegafé hvers árs þannig að umferðamestu vegirnir fái nægilegt fjármagn til reksturs og viðhalds.  Minni sveitavegir með tiltölulega litla umferð eru því oft settir á biðlista.

Í minnisblaði sveitarstjóra var sérstaklega bent á nokkra vegi sem eru í slæmu ástandi og þurfa gagngerar endurbætur.  Þeir helstu eru:  Krókur, Ásmundarstaðir, Áshóll, Hárlaugsstaðir, Borgarholt, Sel og Sumarliðabæjarvegur.  Vegagerðin hefur staðfest að taka til skoðunar hvort hægt verði að vinna a.m.k. hluta þessara vega á næsta ári.

Byggðaþróunarfulltrúi Rangárvallasýslu

Á auka aðalfundi SASS í júní s.l. var kynnt nýtt skipulag fyrir byggðaþróunarfulltrúa á Suðurlandi.  Þar er lagt upp með að atvinnusóknarsvæðin á Suðurlandi séu sjö og Rangárvallasýsla sé eitt atvinnusóknarsvæði.

Á lestum starfsvæðum byggðaþróunarfulltrúa er til staðar stofnun sem hýsir þá í samstarfi viðkomandi og SASS.  Þegar byggðaþróunarfulltrúi var settur í Rangárvallasýslu var ekki til staðar slík stofnun og því farið í samstarf við Háskólafélag Suðurlands.

Á auka aðalfundinum voru fundarmenn sammála um að jákvætt væri að koma á fót starfi byggðaþróunarfulltrúa í samstarfi SASS og sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu og er sú hugmynd í skoðun þessa dagana.  Hreppsnefnd Ásahrepps skipaði Nönnu Jónsdóttur sem fulltrúa sinn í vinnuhóp sem er í þessari skoðun málsins.  Þegar niðurstaða vinnuhóps liggur fyrir mun hún verða kynnt á þessum vettvangi.

Álagning fasteignagjalda

Búið er að vinna álagningu fasteignagjalda árið 2023 og er fyrsta greiðsla með gjalddaga 1. febrúar (og eindaga 28. febrúar).  Fasteignagjöldum er dreift á 6 mánuði.  Fasteignagjöld aðila sem eru undir 20.000 kr. hafa einungis einn gjalddaga, 1. apríl (með eindaga 30. apríl).

Álagningaseðlar eru sendir rafrænt á Island.is.  Ef einhver óskar eftir að fá útprentaða álagningarseðla, þá er viðkomandi beðinn um að hafa samband við skrifstofu Ásahrepps og óska eftir því.  Einnig er hægt að senda tölvupóst til ragnheidur@asahreppur.is .

Bæjarlýsing

Hreppsnefnd Ásahrepps ákvað á desemberfundi sínum, upphæð endurgreiðslu vegna bæjarlýsingar fyrir árið 2022.  Samþykkt var að endurgreiðsla yrði kr. 46.000 fyrir tvo ljósastaura á hvert heimili þar sem er búseta.  Jafnframt samþykkti hreppsnefnd Ásahrepps að þetta yrði síðasta árið sem hreppurinn greiðir fyrir bæjarlýsingu, þannig að frá ársbyrjun 2023 munu hver og einn standa straum af kostnaði vegna bæjarlýsingar.  Sveitarfélagið mun samt sem áður eiga umrædda ljósastaura og sjá um viðhald þeirra.  Einnig mun sveitarfélagið sjá um uppsetningu nýrra ljósastaura eins og verið hefur skv. verklagsreglum sem samþykktar hafa verið á hreppsnefnd.