Fréttapunktar af vettvangi Ásahrepps
Styrkveitingar og álagning fasteignaskatts
Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti samhljóða á 19. fundi sínum að lækka álagningu fasteignaskatts á A-hluta, þ.e. íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og hús í landbúnaðarnotum. Álagningarhlutfall var 0,22% af fasteignamati en verður næsta ár 0,15%, sem er 32% lækkun fasteignaskatts af A-hluta. Jafnframt var samþykkt samhljóða að leggja af styrki fyrir kaupum á rotþró / hreinsistöð og kaupum og uppsetningu varmadælu í húsnæði sem ekki getur tengst hitaveitu Veitna. Áfram verður þó unnið að uppsetningu ljósastaura á bæjarhlöð nýbýla, þar sem föst búseta er komin, jafnframt því að sjá til að bundið slitlag verði sett á nýjar heimreiðar að nýbýlum þar sem komin er föst búseta.
Önnur nýbreytni var samþykkt á umræddum fundi, en greiddur verður hvatastyrkur til íbúa 60 ára og eldri að upphæð kr. 75.000 á næsta ári. Þessi styrkur er veittur gegn framvísun greiðslukvittunar fyrir kostnaði er lýtur að heilsurækt og félagslegri virkni viðkomandi á árinu 2024. Nánari útfærsla á framkvæmd útborgana umrædds styrks verður til umfjöllunar á næsta reglubundna fundi hreppsnefndar í desember á þessu ári.
Að lokum samþykkti hreppsnefnd Ásahrepps að setja gjaldskrá fyrir tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu. Gjaldið er þjónustugjald sem skal mæta þeim kostnaði sem hlýst af því að tæma rotþrær í sveitarfélaginu, en gert er ráð fyrir að kostnaður við tæmingu hverrar rotþróar sé 37.500 krónur. Gjaldið fyrir hverja tæmingu verður skipt niður á þau ár sem líða á milli tæminga. Venjulega eru rotþrær tæmdar á þriggja ára fresti þannig að 37.500 krónur er þá skipt niður á 3 ár, þ.e. 12.500 krónur á ári. Með þessari ákvörðun er Ásahreppur að innheimta sambærileg gjöld og önnur samstarfssveitarfélög sem eru í seyruverkefninu sameiginlega. Annar kostnaður svo sem við meðhöndlun seyru m.m. er greiddur af sveitarfélaginu.
Grænar samgöngur; göngu-, reiðhjóla- og reiðstígar í Ásahreppi
Unnið hefur verið að undirbúningi við lagningu reiðvegar um Faxatröð, þ.e. frá mörkum Áss og Ásmundarstaða að vegi sem liggur að Hestási, svo kallaður Skógarásvegur. Búið er að jafna undir umræddan stíg og verið er að girða hann af. Stefnt er að því að efni verði flutt og lagt út í vetur meðan jörð er frosin. Gert er síðan ráð fyrir að halda áfram með reiðveg meðfram Skógarásvegi út að Ásvegi. Jafnframt að gamla leiðin um land Ásmundarstaða að Ásmundarstöðum verði lagfærð, keyrt í efni og girðing löguð
Íbúafundur Ásahrepps, haldinn 30. Nóvember 2023.
Íbúafundur Ásahrepps var haldinn að Laugalandi fimmtudaginn 30. nóvember s.l. Helstu punktar frá fundinum eru eftirfarandi:
-
Fjárhagsáætlun Ásahrepps 2024-2027 og fjárfestingar næsta árs.
Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, fór yfir drög að fjárhagsáætlun Ásahrepps ásamt þeim hugmyndum um fjárfestingar / framkvæmdir. Gerði grein fyrir því fjárhagslega rými sem fjárhagsáætlun gefur kost á, miðað við að ekki verður um lántöku að ræða hjá sveitarfélaginu.
Fram kom að í máli Valtýs að sú breyting verður á áætlun næsta árs að Ásahreppur fær framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2024, sem mun breyta umtalsvert fyrir sveitarfélagið. Undanfarin ár hefur Ásahreppur ekki fengið úthlutun úr sjóðnum og rekstur því verið frekar þungur.
-
Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga af orkumannvirkjum.
Ísleifur Jónasson, oddviti, gerði grein fyrir vinnu Samtaka orkusveitarfélaga og ráðuneyta er varðar tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga af orkumannvirkjum. Nefndir hafa verið að störfum hjá ríkinu þar sem verið er að skoða hugmyndir að breytingu lagaumhverfis, þar sem áhersla er lögð á réttláta skiptingu þessara tekna. Markmiðið er að nærumhverfi orkumannvirkja og dreifikerfis njóti í meira mæli tekna af orkuvinnslu í landinu. Á næstu dögum má gera ráð fyrir að skýrslur nefnda verði skilað og þær birtar.
- Álagning gjalda árið 2024 og breytingar á styrkjum sveitarfélagsins.
Valtýr Valtýsson gerði grein fyrir ákvörðun hreppsnefndar Ásahrepps um álagningu gjalda fyrir árið 2024. Helstu breytingar sem samþykktar hafa verið eru að álagningarhlutfall A-hluta fasteignagjalda er lækkað úr 0,22% í 0,15%, sem er um 32% lækkun. Gera má ráð fyrir að lækkun fasteignaskatts A-hluta verði um 4,4 milljónir króna. Einnig var ákveðið að sveitarfélagið hætti að greiða styrk vegna kaupa á rotþró / hreinsistöð og kaupa og uppsetningu varmadæla við ný íbúðarhús þar sem föst búseta er til staðar. Jafnframt samþykkti hreppsnefnd að taka upp nýjan hvatastyrk fyrir íbúa Ásahrepps 60 ára og eldri til heilsueflingar og eflingar félagslegrar virkni. Umræddur styrkur nemur kr. 75.000 á ári fyrir hvern einstakling gegn framvísun greiðslukvittun fyrir útlögðum kostnaði viðkomandi.
- Átak í eflingu heilsu og félagslegrar virkni íbúa 60 ára og eldri.
Nanna Jónsdóttir gerði grein fyrir sameiginlegu verkefni sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu þar sem lögð er áhersla á að efla heilsu og félagslega virkni íbúa 60 ára og eldri. Nanna er fulltrúi Ásahrepps í stýrihópi fyrir verkefnið.
- Framtíð félagsheimilisins Ásgarðs.
Valtýr Valtýsson gerði grein fyrir stöðu mála varðand félagsheimilið Ásgarðs, Ási. Ungmennafélag Ásahrepps og landeigendur hafa undirritað lóðarleigusamning fyrir húsið og liggur fyrir að þinglýsa þessum lóðaraleigusamningi. Þegar því er lokið á ekkert að vera því til fyrirstöðu að skráning hússins verði lagfærð og ungmennafélagið getur tekið ákvörðun um næstu skref. Fram komu á fundinum skiptar skoðanir um framtíð hússins, þ.e. hvort gera eigi það upp eða fjarlægja.
Ljóst er að ungmennafélagið þyrfti að halda aðalfund þar sem framtíð félagsheimilisins verði rædd og ákvörðun tekin um framhaldið.
-
Skipulagsmál.
Ísleifur Jónasson gerði grein fyrir heilstu atriðum um skipulagsmál sveitarfélagsins. Nýtt aðalslipulag Ásahrepps tók gildi á síðasta ári og nú er í auglýsingarferli og umsagnarferli svæðisskipulag Suðurhálendis. Einnig benti hann á nýjar áherslur sem komið hafa fram við gerð deiliskipulaga í Ásahreppi þar sem land er skipulagt fyrir íbúabyggð, ekki ólíkt og gert var í landi Hellatúns, þ.e. Laufássvæðið. Einnig benti Ísleifur á möguleika sem skapast hafa við nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðis í landi Lækjartúns.
-
Staða í sameiningarmálum sveitarfélaga.
Ísleifur Jónasson gerði grein fyrir stöðu mála er varðar sameiningu sveitarfélaga í ljósi nýrra laga um lágmarksstærð sveitarfélaga. Ljóst er að lágmarks íbúafjöldi sveitarfélaga verður 1.000 íbúar um næstu kosningar 2026. Nauðsynlegt er að íbúar Ásahrepps ræði framtíð sveitarfélagsins í breyttu lagalegu umhverfi.
Fjárhagsáætlun Ásahrepps 2024 – 2027
Á 20. fundi hreppsnefndar Ásahrepps var fjárhagsáætlun áranna 2024-2027 tekin til síðari umræðu og afgreiðslu. Helstu kennitölur rekstrarreiknings samstæðureiknings eru í þúsundum króna:
Ljóst er að rekstrarforsendur sveitarfélagsins hafa breyst umtalsvert með tilkomu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Hreppsnefnd Ásahrepps og starfsfólk óskar íbúum Ásahrepps og Sunnlendingum öllum gleðiríkrar jólahátíðar og gæfuríks nýs árs.